„Fyrrverandi aðstoðarmaður minn, Gísli Freyr Valdórsson, óskaði síðdegis í dag eftir fundi með mér í framhaldi af tilkynningu frá Héraðsdómi Reykjavíkur um að réttarhöldum í máli ríkissaksóknara gegn Gísla Frey hefði verið frestað," segir í tilkynningu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur sent frá sér.

„Gísli Freyr játaði svo á fundinum mér að hann hefði afhent skjal úr ráðuneytinu varðandi hælisleitanda til fjölmiðla í nóvember 2013.

Trúnaðarbrot Gísla Freys gagnvart mér, ráðuneytinu og almenningi öllum er algjört og alvarlegt.  Gísli Freyr hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu, ekki aðeins gagnvart yfirvöldum og fjölmiðlum, heldur einnig gagnvart samstarfsfólki sínu og yfirmönnum í ráðuneytinu.

Í framhaldi af játningu Gísla Freys var honum fyrirvaralaust vikið úr störfum í ráðuneytinu.  Ég harma brot Gísla Freys, ekki aðeins gagnvart þeim sem brotið var gegn með lekanum sjálfum, heldur einnig gagnvart því samstarfsfólki sem trúað hefur yfirlýsingum hans um sakleysi og því hvernig athæfi hans hefur varpað skugga á störf ráðuneytisins um margra mánaða skeið.

Sú staðreynd að fyrrverandi aðstoðarmaður minn hafi brotið svo alvarlega á trúnaði gagnvart mér sem ráðherra, sem ítrekað hef haldið uppi vörnum fyrir hann í því trausti að hann hefði skýrt mér og öðrum satt og rétt frá, kemur mér algjörlega í opna skjöldu og er þyngri byrði fyrir mig en ég get lýst í fáum orðum."