Gísli Hauksson fv. forstjóri og annar stofnenda GAMMA hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu. Engin breyting verður á hluthafahópi GAMMA.

Gísli Hauksson fyrrverandi forstjóri og annar stofnenda GAMMA Capital Management hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu. Gísli var annar stofnenda GAMMA fyrir 10 árum og stýrði í  ár vexti og uppbyggingu félagsins. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á þessum tíu árum en í lok síðasta árs var félagið með um 137 milljarða króna í stýringu og rekstrarhagnaður þess árs var sá næst besti í sögu félagsins.

Síðan 2015 hefur Gísli verið búsettur erlendis og á þeim tíma m.a. leitt uppbyggingu á erlendri starfsemi félagsins, en 9. febrúar síðastliðinn tilkynnti félagið að hann hefði hætt sem stjórnarformaður sjóðstýringarfélagsins til að taka við erlendri starfsemi þess eins og Viðskiptablaðið sagði frá . Gísli hætti sem forstjóri sjóðstýringarfyrirtækisins fyrir rétt um ári síðan og tók þá við sem stjórnarformaður.

Valdimar tekur við fyrst um sinn

Í fréttatilkynningu Gamma á vef félagsins segir að Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA muni fyrst um sinn hafa yfirumsjón yfir starfsemi fyrirtækisins í New York og London. Engin breyting verði á hluthafahópi GAMMA. „Ég læt nú af störfum hjá félaginu sem ég stofnaði fyrir um 10 árum og hefur átt hug minn allan þann tíma,“ segir Gísli.

„Á þessum tímamótum við 10 ára afmæli félagsins er gott tilefni til að breyta til og mun ég einbeita mér í ríkara mæli að öðrum verkefnum, m.a. eigin fjárfestingum og fjölskyldunnar, stjórnarsetu í fyrirtækjum og verkefnum á sviði menningarmála. Ég verð áfram stærsti einstaki hluthafi GAMMA og mun styðja við frekari vöxt og viðgang félagsins. Rekstur félagsins er í góðum höndum samstarfsmanna til margra ára og veit ég að GAMMA verður áfram í fremstu röð fjármálafyrirtækja.“

Hlíf Sturludóttir, stjórnarformaður GAMMA segir eftirsjá af Gísla úr rekstrinum en líka skilningur á að hann vilji breyta til. „Samstarfsfólk GAMMA þakkar Gísla fyrir samstarfið og forystuna undanfarinn áratug,“ segir Hlíf.„Framundan eru spennandi tímar hjá GAMMA þar sem stoðir fyrirtækisins verða treystar enn frekar og ýmis stór verkefni verða leidd til lykta.“