Gísli J. Friðjónsson, sem seldi hlut sinn í Hópbílum til framtakssjóðsins Horns III, er skattakóngur ársins. Hann greiðir 570.452.598 í opinber gjöld á árinu samkvæmt úttekt Ríkisskattstjóra. Næstur á lista var Einar Friðrik Sigurðsson sem greiðir tæplega 384 milljónir í skatta og, á eftir Einari fylgdi Katrín Þorvaldsdóttir, erfingi Síldar og Fisks, sem greiðir 362,7 milljónir krónar. Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017, á tekjur ársins 2016.

Guðmundur Kristjánsson sem er oft kenndur við Brim, greiðir 231,6 milljón krónur í skatt á árinu. Framteljendur á skattgrunnskrá hafa aldrei verið fleiri og eru þeir 286.728 talsins. Það eru  9.122 fleiri en fyrir ári sem er fjölgun um 3,3%. Framteljendum á grunnskrá hefur ekki fjölgað jafnmikið á einu ári síðan árið 2007 en þá fjölgaði um 10.855. Við álagningu nú voru skattstofnar 13.125 einstaklinga áætlaðir en það er um 4,58% af heildarfjölda. Nokkur hluti skýrist af framtölum sem ríkisskattstjóri útbýr fyrir framteljendur vegna sérstakra aðstæðna en slík framtöl hafa sömu réttaráhrif og þegar skattstofnar eru áætlaðir.