Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, segir að ríkisábyrgðir almennt hafi slæm áhrif á stöðu ríkissjóðs. „Það er ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og full ábyrgð á innstæðum, en menn átta sig ekki alltaf á því hvað þetta þýðir. Ríkisábyrgð kostar peninga - mikla peninga. Hún kostar það að lánshæfi ríkissjóðs er verra en það væri ella. Ríkisábyrgð á innstæðum hefur líka slæm áhrif á Íbúðalánasjóð. Bankarnir eru fullir af fé sem þeir nota til að keppa við Íbúðalánasjóð á fasteignalánamarkaði og undanfarið hefur mikið verið um það að fólk greiði upp íbúðalánin sín þar og endurfjármagni hjá bönkunum með tilheyrandi kostnaði fyrir Íbúðalánasjóð og þar með ríkissjóð og á endanum þá skattgreiðendur. Að sama skapi má segja að ríkisábyrgðin á Íbúðalánasjóði gerði það að verkum að lengi vel sat hann einn að íbúðalánamarkaðnum og bankarnir höfðu mjög lítinn hluta af þessum eignum, þ.e. veðtryggðum fasteignalánum, og því var lánshæfi þeirra lægra en það hefði ef til vill annars verið.“

Ríkisábyrgðir af þessu tagi eru oftast sprottnar af mistækum velvilja stjórnmálamanna, að mati Gísla. „Menn gera sér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefur. Tökum sem dæmi innstæðutryggingarnar. Vegna þess að það er engin áhætta fólgin í því að vera með peninga á bók liggja fjárfestar í mjúkum faðmi ríkisábyrgðarinnar í stað þess að festa féð í einhverju öðru uppbyggilegra, eins og hlutabréfum, skuldabréfum fyrirtækja eða fasteignum. Ríkisábyrgðir kosta og á endanum lendir kostnaðurinn óhjákvæmilega á skattgreiðendum.“

Ómögulegt nema aflandskrónueigendur taki á sig tap

Hann segir líka að ríkisábyrgðin geri það að verkum að aflandskrónueigendur eru tilbúnir að sitja með sínar krónur á ríkistryggðum reikningum og hafi því ekki verið eins áfjáðir í að taka þátt í uppboðum Seðlabankans eða að skoða aðra fjárfestingakosti. „Menn virðast hafa sett ákveðin skilyrði fyrir afnámi hafta og því hvernig losna eigi við aflandskrónurnar: krónan má ekki veikjast, verðbólga má ekki aukast og gjaldeyrisvaraforðinn má ekki tæmast. Ef þetta eru skilyrðin sem við setjum þá er verkefnið ómögulegt nema að erlendu aðilarnir taki á sig tapið. Þeir hafa hingað til verið nokkuð sáttir með sitt. Þeir hafa fengið fína vexti og Ísland stendur bara sæmilega miðað við önnur lönd.“

Ítarlegt viðtal við Gísla er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.