Gísli S. Brynjólfsson hefur verið ráðinn forstöðumaður markaðsmála hjá Icelandair (e. Director of Global Marketing). Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Gísli hefur starfað hjá Hvíta húsinu auglýsingastofu í 15 ár, þar af síðastliðin átta ár sem framkvæmdastjóri. Í starfi sínu hjá Hvíta húsinu hefur hann verið einn af helstu markaðs- og stefnumótunarráðgjöfum stofunnar og unnið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, bæði hér á landi og erlendis. Áður starfaði hann sem sölu- og kynningarstjóri hjá Skýrr hf., eða á árunum 1999 til 2002. Gísli sat í stjórn Ímark frá 2011 til 2014. Gísli er með BSc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskóla Íslands og MSc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Grenoble Ecole de Management í Frakklandi.

„Við erum mjög ánægð að fá jafn reynslumikinn mann og Gísla í okkar raðir. Hann hefur verið þungavigtarmaður í markaðsmálum á Íslandi til margra ára og það er verðmætt fyrir Icelandair að fá hann til að stýra þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru," segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair Group.

Gísli er giftur Sigríði Önnu Árnadóttur viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði hjá Landsbankanum og eiga þau þrjú börn.