*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 10. febrúar 2017 09:50

Gísli: Virkjum einkaframtakið í orkugeiranum

Forstjóri GAMMA telur að sala á hlut í Landsvirkjun og OR til einkaaðila myndi auka rekstrarhæfi fyrirtækjanna og draga úr áhættu skattgreiðenda.

Snorri Páll Gunnarsson
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management, á Viðskiptaþingi 2017.
Eva Björk Ægisdóttir

Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management, segir skynsamlegt að selja hluta af orkufyrirtækjum hins opinbera til einkaaðila til að draga úr áhættu skattgreiðenda og virkja einkaframtakið í orkugeiranum. Þetta kom fram í erindi hans á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í gær.

Gísli flutti stutt erindi um orkugeirann. GAMMA hefur komið að þeim geira með margvíslegum hætti í gegnum tíðina, svo sem með ráðgjöf, greiningum og beinum kaupum á skuldabréfum orkufyrirtækja.

Er ríkið að ganga of langt?

Benti Gísli á að ólíkt öðrum auðlindagreinum landsins – sjávarútvegi og ferðaþjónustunni – væri umfang ríkisins umtalsvert í orkugeiranum.

„Aðkoma ríkisvaldsins er hverfandi þegar kemur að sjávarútvegi og ferðaþjónustu, en í orkugeiranum er ríkið ansi umsvifamikið. 92% af þeirri orku sem framleidd er í dag á Íslandi er framleidd af fyrirtækjum sem er í beinni eða óbeinni eigu hins opinbera.

Raforkunotkun hefur verið að vaxa mjög mikið, þannig að fjárfesting hins opinbera í þessum geira hefur vaxið gríðarlega síðustu 10 til 15 árin. Nú er svo komið að um 80% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi fer til svokallaðra „stórnotenda,“ þannig að almennir notendur – heimili og venjuleg fyrirtæki auk smáfyrirtækja – nota aðeins 20%.“

Í ljósi þessa spurði Gísli: „Er ríkið að ganga of langt? Er það grundvallarhlutverk ríkisvaldsins að skaffa þessum stóra hópi rafmagn?“

250 milljarðar fyrir 30% hlut

Til þess að leita svars við þeirri spurningu skoðaði Gísli hlutfall nettó vaxtaberandi skulda og rekstrarhagnaðar fyrirtækja í orkugeiranum á Íslandi og á Norðurlöndunum. Hlutfallið (NIBD/EBITDA) er kennitala sem oft er notuð sem viðmið þegar verið er að greina rekstrarhæfi fyrirtækja.

Fyrirtæki sem framleiða rafmagn og starfa í orkuiðnaði á Norðurlöndunum hafa frá um 2004 verið með nettóskuldir sem svara til einföldum til fimmföldum rekstrarhagnaði. Hinir tveir stóru orkuframleiðendur hér á landi – Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur – hafa verið með mun hærri hlutföll, og árin 2008 og 2009 voru nettóskuldir nærri því tuttugu sinnum rekstrarhagnaður.

„Að einhverju leyti er ósanngjarnt að bera saman félög sem eru í miklum vexti og fjárfestingum,“ sagði Gísli. „En þetta er alla vega ágætis vísbending um það að rekstrarhæfi viðkomandi fyrirtækis er ekkert sérstaklega gott.“ Orkugeirinn væri brothætt fjöregg og að það hafi komið nálægt því að brotna í kringum hrunið.

Einnig benti Gísli á að þrátt fyrir að gríðarleg verðmæti hafi skapast innan orkugeirans undanfarin ár, sem er með yfir 500 milljarða króna í eigið fé í dag, hafi ávöxtunin ekki verið sérstaklega há á hverjum tíma. Telur hann þessu eigin fé, eða stóran hluta þess, betur borgið í umsjón einkaaðila.

„Það eru mikil vaxtartækifæri í orkugeiranum og möguleiki á því að selja raforku til útlanda í gegnum sæstreng. GAMMA metur sem svo að 30% hlutur í orkufyrirtækjum í opinberri eigu væri hægt að selja á allt að 250 milljarða.“ Til að setja það í samhengi væri hægt að greiða niður helminginn af áætluðum nettóskuldum ríkisins árið 2021, úr 500 milljörðum í 250 milljarða.

Sláaum tvær flugur í einu höggi

En af hverju er rétti tíminn til að ræða þetta núna?

„Í rammaáætlun við nýtingu orkukosta á Íslandi er í nýtingarflokki möguleiki á að virkja samtals fyrir 1.400 megavött. 70-80% af þeim virkjunarkostum eru í umsjón opinberra aðila. Það þýðir að umfang hins opinbera á þessum markaði mun aukast enn frekar. Það er mjög ólíklegt að það sé þörf á frekari raforku fyrir heimili og minni fyrirtæki, þannig að þetta mun fara í stóriðju,“ sagði Gísli.

„Ég held að við verðum að ræða það alvarlega hvort að við ættum ekki að slá tvær flugur í einu höggi með því að selja hluta af þessum orkufélögum, til að draga úr áhættu skattgreiðenda og virkja einkaframtakið.“

Stikkorð: Gísli Hauksson GAMMA orka ríkisumsvif