Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins mun fara fram í febrúar. Á meðal þátttakenda verða Gissur Páll Gissurarson tenór og Pollapönkararnir Heiðar Örn Kristjánsson, Haraldur F. Gíslason, Guðni Finnsson og Arnar Gíslason. Laga- og textahöfundar eru 23 og flytjendur 18 talsins.

Tvær undankeppnir verða á dagskrá RÚV laugardaginn 1. og 8. febrúar. 10 lög keppa þar um að komast í úrslit, fimm hvort kvöld. Úrslitin fara fram í beinni útsendingu frá Háskólabíói laugardaginn 15. febrúar.

Aldrei hafa fleiri lög verið send inn til þátttöku en í ár.  Alls bárust 297 lög sem er nærri 25% aukning frá síðustu keppni. Þá eru höfundar fleiri áður því að í ár voru gerðar þær breytingar á reglum keppninnar að hver höfundur mátti aðeins skila inn tveim lögum í stað þriggja eins og áður.

Sama fyrirkomulag verður á úrslitakvöldinu og tekið var upp í fyrsta skipti í síðustu keppni við góðar undirtektir. Dómnefnd hefur helmings atkvæðavægi á móti símakosningu. Þegar stigin hafa verið talin heyja tvö stigahæstu lögin einvígi, keppa um hvort þeirra verður framlag Íslands í Eurovision-keppninni og ráðast þá úrslitin í hreinni símakosningu. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin í Kaupmannahöfn, dagana 6., 8. og 10. maí 2014.

Nýtt par kynnastígur fram á sjónarsviðið í keppninni í ár, þær Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Guðrún Dís Emilsdóttir sem ekki hafa áður unnið saman í sjónvarpi. Þeim til halds og trausts verða hraðfréttamennirnir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson sem komu að síðustu keppni með eftirminnilegum hætti.

Þessi lög taka þátt í keppninni:

Amor
Lag og texti: Haukur Johnson
Flytjandi: Ásdís María Viðarsdóttir

Aðeins ætluð þér
Lag: María Björk Sverrisdóttir, Marcus Frenell, Beatrice Eriksson og Johnny Sanchez
Texti: María Björk Sverrisdóttir
Flytjandi: Guðbjörg Magnúsdóttir

Dönsum burtu blús
Lag og texti: StopWaitGo
(Pálmi Ragnar Ásgeirsson, Ásgeir Orri Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson)
Flytjandi: Sverrir Bergmann

Elsku þú
Lag: Vignir Snær Vigfússon
Texti: Þórunn Erna Clausen
Flytjandi: Vignir Snær Vigfússon

Eftir eitt lag
Lag: Ásta Björg Björgvinsdóttir
Texti: Bergrún Íris Sævarsdóttir
Flytjandi: Greta Mjöll Samúelsdóttir

Enga fordóma
Lag: Heiðar Örn Kristjánsson
Texti: Heiðar Örn Kristjánsson og Haraldur F. Gíslason
Flytjendur: Pollapönk
(Heiðar Örn Kristjánsson, Haraldur F. Gíslason, Guðni Finnsson og Arnar Gíslason)

Lífið kviknar á ný
Lag: Karl Olgeir Olgeirsson
Texti: Karl Olgeir Olgeirsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir
Flytjandi: Sigríður Eyrún Friðriksdóttir

Til þín
Lag: Trausti Bjarnason
Texti: Guðrún Eva Mínervudóttir
Flytjandi: Guðrún Árný Karlsdóttir

Von
Lag og texti: Jóhann Helgason
Flytjandi: Gissur Páll Gissurarson

Þangað til ég dey
Lag og texti: Franz Ploder Ottósson, Pétur Finnbogason og Lárus Örn Arnarsson
Flytjendur: F.U.N.K.  (Franz Ploder Ottósson, Pétur Finnbogason, Lárus Örn Arnarsson, Valbjörn Snær Lilliendahl, Egill Ploder Ottósson og Hörður Bjarkason)