Hægt verður að eignast gistiheimili í Maine í Bandaríkjunum fyrir 125 dali, andvirði 17.000 króna, frímerki og tvö hundruð orða ritgerð. Í blaðinu Portland Press Herald er greint frá áformum Janice Sage, eiganda Center Lovell Inn and Restaurant, um að afhenda nýjum eiganda gistiheimilið með óvenjulegum hætti.

Hún mun halda eftir öllu fé sem allir þátttakendurnir senda henni, en dómnefnd mun sjá um að velja sigurvegarann. Samkvæmt reglunum þá er miðað við að hún fái 7.500 svör, sem þýðir að hún mun fá um 900.000 dali fyrir eignina, sem er nokkuð yfir markaðsverði.

Merkilegt nokk þá eignaðist Sage gistiheimilið með mjög svipuðum hætti árið 1993. Þáverandi eigendur Center Lovell Inn, Bill og Susie Mosca, héldu sambærilega keppni þá og varð Sage hlutskörpust. Einn munur er þá á fyrirkomulaginu nú og þá, en Sage mun halda eftir öllu fé sem henni berst þótt þátttakendur verði fleiri en 7.500 talsins. Mosca höfðu sett sér það markmið að afla 500.000 dala, en fengu 700.000 dali. Þurftu þau að skila 200.000 dölum vegna reglnanna sem þau höfðu sjálf sett.

Sage segist hafa gengið frá öllu sem ganga þarf frá varðandi yfirvöld í Maine. Vegna þess að um ritgerðasamkeppni er að ræða þá telst keppnin ekki tombóla, eða lottó, og er því lögleg.