Heildarfjöldi greiddra gistinátta í febrúar síðastliðnum dróst saman um 12,7% samanborið við febrúar 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 4% og um 24% á gistiheimilum. Þá var 43% fækkun gistinátta á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður og á öðrum tegundum gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.) var 1% aukning frá fyrra ári. Hagstofa Íslands greinir frá þessu.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum hafi verið um 555.000 í febrúar en þær hafi verið um 636.000 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum hafi verið um 387.000, þar af 336.000 á hótelum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum o.þ.h. hafi verið um 102.000 og um 67.000 á stöðum sem miðla gistingu í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

4% fækkun gistinátta hjá hótelum

Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum hafi verið um 336.000 sem sé 4% fækkun frá sama mánuði árið áður. Gistinóttum á hótelum hafi fækkað hlutfallslega mest á Suðurlandi (18%), Suðurnesjum (13%) og Norðurlandi (12%) en fjölgað nokkuð á Austurlandi (8%). Um 66% allra hótelgistinátta hafi verið á höfuðborgarsvæðinu, eða 222.100, sem hafi verið 2% aukning frá febrúar 2019.

„Á 12 mánaða tímabili, frá mars 2019 til febrúar 2020, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.538.000 sem er 2% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýting á hótelum í febrúar 2019 var 60,1% og dróst saman um 6,9 prósentustig frá fyrra ári. Á sama tíma jókst framboð gistirýmis um 6,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í febrúar var best á höfuðborgarsvæðinu eða 79,4%,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Um 89% gistinátta á hótelum hafi verið skráðar á erlenda ferðamenn eða 298.400. Ferðamenn frá Bretlandi hafi verið með flestar gistinætur, eða 95.600 talsins, þar á eftir komu Bandaríkjamenn (66.700) og Þjóðverjar (23.300) en gistinætur Íslendinga hafi verið 37.700. Áhrifa Covid-19 faraldursins hafi á þessum tíma helst verið tekið að gæta í því að 55% samdráttur hafi orðið á hótelgistinóttum Kínverja frá sama mánuði fyrra árs, en þær hafi alls verið 13.900.