Í janúar síðastliðnum voru gistinætur á skráðum gististöðum alls 241.200 talsins samanborið við 56.800 árið áður. Þar af voru íslenskar gistinætur voru um 27% gistinátta eða um 64.900 og þær erlendu um 176.300, eða 73%. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Íslensku gistinæturnar jukust um 46,7% á milli ára en þær erlendu hvorki meira né minna fjórtánfölduðust. „Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 182.700 (þar af 161.600 á hótelum) og um 58.500 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.). Í samanburði við janúar 2020 fækkaði gistinóttum í janúar um 42,3%. Þar af nemur fækkunin um 44,5% á hótelum, 53,8% á gistiheimilum og 28,2% á öðrum tegundum gististaða,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Gistinætur á skráðum gististöðum 2019-2022.
Gistinætur á skráðum gististöðum 2019-2022.

Þar segir jafnframt að gistinætur á hótelum í janúar hafi verið 161.600 og hótelgisting hafi í mánuðinum aukist í öllum landshlutum. Mest hafi orðið hlutfallsleg aukning á höfuðborgarsvæðinu. Gistinætur Íslendinga hafi alls verið 36.500 talsins, eða 22,6% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur hafi verið 125.100, eða 77,4%.

„Á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2021 til janúar 2022, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 2.590.400 sem er 111% aukning frá sama tímabili árið áður. Aukning var í öllum landshlutum á þessu tímabili.“

Loks segir að framboð hótelherbergja í janúar hafi aukist um 69% frá janúar 2021. Herbergjanýting á hótelum hafi verið 28,5% og aukist um 19 prósentustig frá fyrra ári.