Þegar hugsað er um hversu mikil þjóðhagsleg áhrif ferðamanna sem koma hingað til lands er hægt að færa rök fyrir því að þró- un gistinátta gefi gleggri mynd en einfaldlega fjöldi þeirra sem koma í gegnum Leifsstöð. Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, telur að gistinætur segi að einhverju leyti nákvæmari sögu en fjöldi ferðamanna ef litið er til gjaldeyristekna. „Ef dvalarlengdin er að breytast verulega eins og verið hefur þá gefur fjölgun ferðamanna hér á landi ekki jafn góða mælingu á þróun heildartekna af ferðamönnum eins og fjölgun gistinátta,” útskýrir hann.

Þó eru tölur Hagstofunnar ekki fullkomnar. Ferðamiðillinn Túristi benti á um daginn að ákveðin skekkja hafi verið í talningu Hagstofunnar á gistinóttum og að uppi séu vísbendingar séu um að íslenskir hótelgestir séu enn færri en talningar hafi gefið til kynna. Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að fækkun íslenskra gistinátta milli ára skýrist að hluta af því að hlutfall þeirra hafi verið ofmetið í fyrri tölum.

Gústaf bendir á að það séu kostir og gallar við það að rýna í gistináttatölurnar. „Skammtímavísbendingar um fjölda gistinátta taka einungis til hótelgistinátta. Ef ferðamenn eru að færa sig í auknum mæli yfir í Airbnb eins og verið hefur erum við að vanmeta gjaldeyrisáhrifin,“ segir hann. Að lokum bætir hann við að það sem skipti máli núna sé að reyna að átta sig á því hvort það sé að verða einhver stór breyting í komu ferðamanna, neyslu þeirra og dvalartíma. „Það eru ákveðin merki sem benda í þá átt en frekari vísbendingar þurfa þó að koma til svo að hægt sé að álykta um að einhver stökkbreyting sé á ferðinni,“ segir hann að lokum.

Airbnb hefur áhrif

Hegðun ferðamanna hér á landi hefur breyst talsvert á síðustu árum. Í Hagsjá Landsbankans er bent á að ferðamenn kjósi í auknum mæli heimagistingu (Airbnb), og hefur það leitt til minnkandi hlutdeildar hótela og gistiheimila á gistimarkaðnum. Í fyrra áætlaði Hagstofa Íslands að heildarfjöldi gistinátta seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður, sem vantaði inn í gistináttalningu Hagstofunnar hafi verið ríflega ein milljón árið 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .