Gistinætur í síðasta mánuði drógust saman um meira en helming samanborið við sama mánuð í fyrra. Minnihluti gistinátta var frá erlendum ferðamönnum eða 29% eða um 191 þúsund gistinætur. Íslendingar voru 71% gistinátta í júlí en gistinóttum þeirra á hótelum fjölgaði mikið eða um 229%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Gistinóttum á hótelum fækkaði um 56% og á gistiheimilum um rétt rúmlega helming. Gistingum á öðrum gististöðum, til að mynda tjaldsvæðum og farfuglaheimilum, fækkaði um rétt tæplega helming. Áætlun Ferðamálastofu og Hagstofunnar, sem ekki byggir á raungögnum líkt og hinar tölurnar, gerir einnig ráð fyrir því að samdráttur í heimagistingu, gegnum Airbnb eða sambærilegar síður, hafi verið 87%.

Framboð á hótelherbergjum dróst saman um fjórðung samanborið við síðasta ár. Tölurnar sýna að frost er á hótelmarkaði á höfuðborgarsvæðinu en að meira líf hafi verið á landsbyggðinni í sumar. Samdráttur á höfuðborgarsvæðinu í framboði var til að mynda um 38%, um 14% á Suðurlandi og Suðurnesjum en aðeins 3% á öðrum svæðum úti á landi. Herbergjanýting var hæst á Austurlandi, um 73%, en lægst á Suðurnesjum 29%.

Líkt og áður hefur komið fram fjölgaði gistinóttum Íslendinga mjög en á móti kemur að talsverður samdráttur hafi verið á erlendum gestum. Munurinn sést skýrlega á samanburði milli gistinga á hótelherbergjum. Þar fjölgaði Íslendingum um 229% milli ára en 80% samdráttur var hins vegar hjá erlendum ferðamönnum.