Í nýrri könnun Ferðamálastofu á viðhorfi og atferli ferðamanna má áætla að 17% gistinátta í ágúst á síðasta ári hafi verið hjá vinum, ættingjum eða í tengslum við íbúðaskipti og „sófagesti“. Þær gistinætur rata ekki inn í talningar Hagstofunnar og gistinætur því vantalnar um sama hlutfall. Í nóvember var þó hlutfallið lægra eða 8,8%.

Samkvæmt könnuninni var meðaldvöl hvers ferðamanns lengst í ágúst eða 9,3 nætur en styst í nóvember þegar hún var 4,9 nætur. Líkt og fyrri kannanir benda til eru það gestir frá meginlandi Evrópu sem dvelja að jafnaði lengst á meðan Bretar eru með stysta viðkomu hérlendis.

Þá er áhugavert að líta til þess að meðaldvöl gesta frá Japan og Suð-Austur Asíu er tiltölulega jöfn yfir sumar og vetur eða á bilinu 5,9-7,3 nætur.