Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur lýst því yfir að hún vilji sjá gistináttagjaldið annað hvort felldan niður eða færðan til sveitarfélaga samfara breytingum á virðisaukaskattskerfinu.

Samkvæmt frétt Túrista um málið segir Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður ráðherrans, að hún hafi rætt þessar hugmyndir við fjármálaráðherra og fengið jákvæð viðbrögð.

Hins vegar sé formleg vinna við útfærslu á tillögunni ekki hafin, en það verði þó væntanlega skoðað á næstunni.

Gjaldið mun þrefaldast 1. september

Gistináttagjaldið hefur verið 100 krónur síðan það var lagt á fyrir fimm árum síðan, en þann 1. september næstkomandi fer það upp í 300 krónur.

Níu mánuðum síðar mun virðisaukaskatturinn á ferðaþjónustuna síðan ríflega tvöfaldast þegar hann fer úr 11% í 24%, þó hann eigi síðan að lækka niður í 22,5% í ársbyrjun 2019.

Sveitarfélög innheimta víða skatta á hótel

Í fréttinni segir að sérstakir skattar á gistinætur í hótelum séu ekki almennir í þeim löndum þar sem virðisaukaskattur á ferðaþjónustu sé í efsta þrepi, og nefna þeir þar sem dæmi að slíkur skattur hafi ekki verið til umræðu í Danmörku þar sem svo sé.

Í Danmörku er hæsti virðisaukaskattur í Evrópu, og nemur hann 25%, en þar er hlutfall skattheimtunnar á ódýrari gistinguna þó lægra en hér á landi vegna gistináttagjaldsins.

Víða um heim innheimta sveitarfélög þó sérstakan hótelskatt, og borga ferðamenn í fjöldamörgum borgum í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Sviss slík gjöld.