Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru ríflega 80 þúsund og fjölgaði um 4% frá sama mánuði 2005. Kemur þetta fram í frétt Hagstofunnar í morgun.

Er fjölgunin að öllu leyti tilkomin vegna útlendinga en gistinóttum Íslendinga fækkaði í mánuðinum. Aukning varð á öllum landsvæðum nema á Suðurlandi en gistinóttum fækkaði talsvert þar.

Það sem af er ári, janúar-apríl, fjölgaði gistinóttum á hótelum um 8% frá fyrra ári en gistináttafjöldinn fór úr 232 þúsund í 249 þúsund. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum um 5,4% samkvæmt tölum frá Ferðamálaráði. Fjöldi erlendra ferðamanna fór úr 70 þúsund í 74 þúsund en í þeim tölum er tekinn fjöldi erlendra ferðamanna með Norrænu.

Samkvæmt þessu gisti hver ferðamaður í tæpar 3,4 nætur á hóteli. Af þessum tölum má ráða að hlutfall erlendra ferðamanna sem gistir á hótelum sé að aukast. Með aukinni tíðni flugferða og auknum möguleikum á ódýrari flugsætum má búast við áframhaldandi aukningu erlendra ferðamanna til landsins. Einnig mun veiking krónunnar sem orðið hefur á undanförnum vikum koma ferðaþjónustunni vel. Það stefnir því í gott ferðaþjónustusumar segir í Morgunkorni Glitnis.