Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 181.500 en voru 163.800 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 17.700 nætur eða tæplega 11%. samkvæmy upplýsingum Hagstofunnar fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem fækkun gistinátta nam 1% og á Austurlandi þar sem fjöldi gistinátta stóð í stað milli ára. Aukningin var hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum fjölgaði um tæp 15%, úr 95.100 í 109.300 milli ára. Á Norðurlandi nam aukningin rúmum 13%, en gistinætur þar fóru úr 17.600 í 20.000 milli ára. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 6%, úr 23.200 í 24.600.

Fjölgun gistinátta á hótelum í ágúst má bæði rekja til Íslendinga (20%) og útlendinga (10%).

Gistirými á hótelum í ágústmánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 4.049 í 4.568, 13% aukning og fjöldi rúma úr 8.157 í 9.359, 15% aukning. Hótel sem opin voru í ágúst síðastliðnum voru 78 en 76 í sama mánuði árið 2006.

Gistinóttum á hótelum á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði um 14% milli ára
Gistinætur á hótelum fyrstu átta mánuði ársins voru 942.400 en voru 825.900 sama tímabil árið 2006. Fjölgun varð á öllum landsvæðum, mest á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi þar sem gistináttafjöldinn jókst um 16% á hvoru landsvæði um sig. Aukningin nam 12% á Austurlandi, 11% á Suðurlandi og 8% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum.

Fjölgun gistinátta fyrstu átta mánuði ársins nær bæði til Íslendinga og útlendinga, 14% aukning.