Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum voru 63.500 en voru 55.900 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 7.600 nætur eða tæplega 14%, segir í frétt frá Hagstofunni.

Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6% og útlendinga um 17%, en gistinætur þeirra voru um 70% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í febrúar.

Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru 46.400 í febrúar síðastliðnum en voru 41.700 í sama mánuði árið 2006 og fjölgaði þar með um tæplega 4.700 nætur, eða 11%.

Þá fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem þeim fækkaði um 9%, úr 5.600 í 5.100.

Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur ríflega tvöfölduðust, fóru úr 900 í 1.900 milli ára. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 2.000, úr 4.700 í 6.700 (42%). Á Norðurlandi nam fjölgunin 14% í febrúar, en fjöldi gistinátta fór úr 2.900 í 3.300 milli ára, segir í fréttinni.