Gistinætur á hótelum í mars síðastliðnum voru 84.700 en voru 83.000 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi og á Höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum varð fækkun milli ára segir í fréttt Hagstofunnar.

Þar kemur fram að gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi, úr 8.900 í 11.300 eða um tæp 28%  miðað við mars 2008. Á Höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum úr 60.100 í 61.400 eða um rúm 2% miðað við sama mánuð í fyrra.

Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 6.600 í 5.100 eða um 23%. Gistinóttum fækkaði einnig á Austurlandi úr 2.100 í 1.700 eða um tæp 18%. Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum um tæp 4% , voru 5.100 miðað við 5.300 í mars 2008.

Fjölgun gistinátta á hótelum í mars má aðallega rekja til Íslendinga en gistinóttum þeirra fjölgaði um tæp 4% á meðan og gistinóttum útlendinga fjölgaði um rúmt 1% miðað við mars 2008.