Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 103.700 en voru 108.800 í sama mánuði árið 2007, sem er því tæplega 5% samdráttur milli ára.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þá kemur fram að á Höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum úr 83.100 í 76.400 eða um 8%.

Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum úr 6.400 í 5.100 eða um 20% og á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum um 1%, úr 7.400 í 7.300.

Gistinóttum fjölgaði hinsvegar umtalsvert á Austurlandi og Suðurlandi í október miðað við október 2007.

Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Austurlandi um tæp 35%, eða úr 2.100 í 2.900. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 9.800 í 12.100 milli ára eða um 24%.

Þess má geta að á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða hafa bæst við í gagnagrunn gistináttatalningar gögn frá tveimur hótelum fyrir októbermánuð.

Gistinóttum á hótelum fyrstu tíu mánuði ársins fjölgaði um tæp 2% milli ára

Gistinætur á hótelum fyrstu tíu mánuði ársins voru 1.199.500 en voru 1.181.200 á sama tímabili árið 2007.

Fjölgun varð á Austurlandi um 12% og á Suðurlandi um 7% milli ára. Gistinætur eru svipaðar eða hafa dregist örlítið saman á öðrum landsvæðum.

Gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um tæpt 1% fyrstu tíu mánuði ársins miðað við sama tímabil árið 2007. Gistinóttum útlendinga fjölgar um tæp 2% milli ára.