Gistinætur á hótelum og gistiheimilum fyrstu fjóra mánuði ársins 2006 voru 290.500 en voru 264.500 fyrir sama tímabil árið 2005 en það er 9,8% aukning, segir í tilkynningu Hagstofu Íslands.

Á fyrsta ársþriðjungi fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum nema á Suðurlandi og Vestfjörðum en gistinóttum fækkaði í báðum landshlutum um 7%.

Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurnesjum en fjöldi gistinátta þar fór úr 10.800 í 17.600 sem er 63% aukning.

Á Norðurlandi vestra fjölgaði gistinóttum um rúmlega 500 og fóru úr 1.800 í 2.300 sem er 30% aukning. Gistinætur á Vesturlandi voru 8.900 en voru 6.900 árið 2005 sem er 28% aukning.

Fjölgunin á Austurlandi nam tæplega 22% en gistinætur þar fóru úr 8.500 í 10.300 milli ára. Á Norðurlandi eystra fjölgaði gistinóttum um 16%, fóru úr 15.100 í 17.500.

Fjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 8% á fyrsta ársþriðjungi, úr 185.500 í 200.300.