*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 30. september 2019 11:15

Gistinóttum fækkaði um 3%

Heildarfjöldi gistinátta fækkaði 3% í ágúst. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 2% en fækkaði um 17% í Airbnb

Ritstjórn
Gistinóttum á tjaldstæðum og farfuglaheimilum fjölgaði um 1%.
Haraldur Guðjónsson

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í ágúst dróst saman um 3% milli 2018 og 2019, að því fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar. Fækkunin kom helst fram í gistinóttum sem miðlað var gegn um Airbnb og svipaðar síður, þar sem fækkunin var 17%.

Gistinóttum á öðrum tegundum gististaða (tjaldsvæðum, farfuglaheimilum, íbúðagistingu o.s.frv.) fjölgaði um eitt prósent.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.518.000 í ágúst síðastliðnum, en þær voru um 1.565.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 711.800, þar af 513.400 á hótelum og 198.400 á gistiheimilum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 566.000 og um 240.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.