Heildarfjöldi greiddra gistinátta í maí dróst saman um 10,2% milli 2018 og 2019. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar .

„Munaði þar mestu um staði sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, þar sem fækkunin var 29%. Einnig var 5,2% samdráttur á hótelum og gistiheimilum og 9,2% fækkun á öðrum tegundum gististaða," segir í fréttinni.

„Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 656.000 í maí síðastliðnum, en þær voru um 731.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 412.000. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 155.000 og um 89.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb."