Heildarfjöldi greiddra gistinátta í apríl dróst saman um 6,0% milli 2018 og 2019. Munar þar mest um staði sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, þar sem fækkunin var 18%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Einnig var 3,7% samdráttur á hótelum og gistiheimilum og 2,5% fækkun á öðrum tegundum gististaða.

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 504.000 í apríl síðastliðnum, en þær voru um 536.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 336.000. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 87.000 og um 80.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða voru um 7.000, og um 25.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Áætlaðar tölur um fjölda gistinátta, utan hefðbundinnar gistináttaskráningar, eru bráðabirgðatölur og geta tekið breytingum með hliðsjón af frekari upplýsingum um framboð og nýtingu staða sem miðla gistingu gegnum Airbnb og veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.