Samtals voru gistinætur ferðamanna á landinu öllu tæplega 10,4 milljónir á síðasta ári sem er um 1,1% aukning frá árinu 2017 þegar þær voru 10,3 milljónir. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands sem sýna jafnframt að mikill munur er á þróun markaða með gistingu eftir landshlutum.

Mest aukning var á Suðurlandi eða 8,6% og næst mest á Vesturlandi þar sem aukningin nam 6,4%. Mestur samdráttur var á Vestfjörðum þar sem gistinóttum fækkaði um rúm 8%. Þá nam samdrátturinn 5,4% á Suðurnesjum og loks var um 2,2% samdrátt að ræða á Höfuðborgarsvæðinu.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru samtals 5,9 milljónir í fyrra og tæplega 1 milljón á tjaldsvæðum. Önnur gisting taldi um 1,7 milljón nætur og um 1,8 milljón í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Aukning upp á 5,1% var á hótelum og gistiheimilum á landinu öllu en á höfuðborgarsvæðinu var aðeins um 0,4% aukning að ræða milli ára. Mest var aukningin á Vesturlandi þar sem fjórðungi fleiri ferðamenn gistu á hótelum en árið á undan. Þá var um 15% aukning á Suðurlandi. Mestur samdráttur var á Vestfjörðum eða 3%.

Mikill samdráttur var á tjaldsvæðum til að mynda var um nær 30% samdrátt að ræða á Höfuðborgarsvæðinu og 40% á Norðurlandi vestra.