Gistinætur ferðamanna hér á landi í fyrra voru 2,9 milljónir sem er hækkun um 6,6% miðað við árið á undan. Mikil fjölgun varð á tjaldsvæðum eða um 29%. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi eða um 20%, á Vestfjörðum um 17,6% og á Norðurlandi vestra um 17,3%. Þjóðverjar gistu hér flestar nætur af erlendum ferðamönnum, sem fyrr. Fjölgun gistinótta má meðal annars rekja til aukinna ferðlaga Íslendinga innanlands.

Þetta kemur fram í Landshögum, árbók Hagstofu Íslands, fyrir árið 2010.

Frá árinu 2008 hefur gistinóttum gesta frá Asíu, annarra en frá Japan og Kína, fjölgað mest eða um rúmlega 40%. Bretar er áfram fjölmennasti hópur erlendra ferðamanna en þaðan komu 61.619 ferðamenn í fyrra. Næst þar á eftir komu Þjóðverjar 51.879 og Bandaríkjamenn með 43.909. Danir voru einnig fjölmennir en rúmlega 40 þúsund ferðamenn komu þaðan.