Gistinætur á hótelum voru 157.000 í júní samanborið við 149.000 í sama mánuði í fyrra. Það er rúmlega 5% fjölgun á milli ára.

Samkvæmt frétt hagstofunar um fjölda gistinótta í júní nær aukningin til allra landsvæða, mest á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem þeim fjölgaði um 13%. Gistinóttum á Suðurnesjum fjölgaði um 12% á milli ára, á Suðurlandi um 7%, á Norðurlandi um 6%, á Austurlandi um 5% og á Höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 4% miðað við júní í fyrra.

Fjölgun gistinótta á hótelum nær eingöngu til erlendra gesta. Gistinóttum Íslendinga fækkaði á milli ára í júní um 20% á meðan gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 10%.

Aukning á fyrri helmingi árs

Fyrstu sex mánuðina á þessu ári hefur gistinóttum fjölgað um tæpt 1% samanborið við sama tímabil í fyrra. Mest var aukningin á Suðurlandi, eða um 6%. Á Norðurlandi var fjölgunin 5%, og 4% á Austurlandi.

Á öðrum landshlutum fækkaði gistinóttum á milli ára eða stóð í stað. Á Vesturlandi og Vestfjörðum nam fækkunin 2% og innan við 1% á Suðurnesjunum og á Höfuðborgarsvæðinu.

Fyrstu sex mánuði ársins fækkar gistinóttum Íslendinga um 7% á meðan gistinóttum  útlendinga fjölgar um 3% miðað við sama tímabil 2009.