Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 114.600 en voru 93.900 í sama mánuði árið 2005, sem er fjölgun um 20.700 nætur, eða 22%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum samkvæmt mælingum Hagstofunnar.

Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 6.500 í 9.300 milli ára sem er 43% aukning. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttumum 27% eða úr 3.700 í 4.700. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um tæp 24%, úr 8.900 í 11.000. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 20% milli ára en þar fór gistináttafjöldinn úr 64.600 í 77.500 milli ára. Á Suðurlandi fóru gistinætur á hótelum í september úr 10.200 í 12.100 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%.

Fjölgun gistinátta á hótelum í ágúst árið 2006 skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 23% og útlendinga um 22%. 80% af heildarfjölda gistinátta voru nýttar af útlendingum í september síðastliðnum.

Gistirými á hótelum í septembermánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.740 í 3.973, 6% aukning og fjöldi rúma úr 7.566 í 7.995, 6% aukning. Hótelin eru jafnmörg bæði árin, 75.

Á fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 11% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 848.700 í 943.700 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 23%. Á Norðurlandi nam aukningin 13%, Suðurlandi 11%, Austurlandi 10% og á höfuðborgarsvæðinu 10%. Fjölgun gistinátta á þessu tímabili skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 13% og útlendinga um 11%. Eins og áður sagði vegur fjölgun gistinátta útlendinga þyngra þar sem gistinætur þeirra eru um 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum þetta tímabil. Sömu sögu er að segja um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu, en þær nema um 65% af heildarfjölda gistinátta.