Gistinætur á hótelum voru 117 þúsund í október samanborið við 105 þúsund í fyrra. Þetta er 11% hækkun á milli ára. Það sem af er ári hefur fjölda gistinótta fjölgað um 13% á fyrstu tíu mánuðum ársins, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Fram kemur í upplýsingunum að erlendir gesttir voru 74% þeirra sem gistu á hótelum hér í október og er það 13% aukning á milli ára. Þeim fjölgaði um 12% á fyrstu tíu mánuðum ársins. Á fyrstu tíu mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum Íslendinga hins vegar um 17% á milli ára.

Gistinóttum fjölgaði mest á höfuðborgarsvæðinu á milli ára, eða um 18%. Það er svipuð aukning og á fyrstu tíu mánuðum ársins. Næstmesta fjölgun gistinótta var á Norðurlandi, eða 17% fjölgun. Svipaður fjöldi gisti á hótelum á Austurlandi og í október í fyrra.