Gistinætur á hótelum í nóvember voru 298.300 sem er 44% aukning miðað við nóvember 2015. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar, en gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinótta í mánuðinum.

Flestar gistinætur á hótelum í nóvember voru á höfuðborgarsvæðinu, 214.500 talsins, eða um 71% allra gistinótta. Miðað við þessar tölur hefur gistinóttum á hótelum fjölgað um 33%.

Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 35.400. Erlendir gestir með flestar gistinætur í nóvember voru Bretar með 96.200 gistinætur, Bandaríkjamenn með 74.600 og Þjóðverjar 18.300, en íslenskar gistinætur í nóvember voru 29.700.