Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 366.900 sem er 8% aukning frá sama tíma í fyrra. Um 62% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 225.900, sem er 5% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum fjölgaði frá október 2016 í öllum landshlutum, mest á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem þeim fjölgaði um 54%. Á sama tímabili hefur hótelum á svæðinu fjölgað úr 14 í 17 og framboð á herbergjum að sama skapi aukist um 21%.

Um 87% gistinátta á hótelum í október voru skráðar á erlenda ferðamenn og fjölgaði þeim um 8% frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10%. Bandaríkjamenn gistu flestar nætur eða 97.800, síðan Bretar sem gistu 62.800 næst og loks Þjóðverjar með 22.600 gæstinætur, en gistinætur Íslendinga voru 45.300.

Á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2016 til október 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.251.000 sem er 16% aukning miðað við sama tímabil árið áður.