Gistinætur á hótelum í júní voru 239.700 sem er 3% aukning miðað við júní 2013. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 6% frá sama mánuði í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fækkaði hins vegar um 15%.

Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum milli ára um 1%. Þeim fjölgaði hins vegar um 37% á Suðurnesjum og 20% á Suðurlandi. Eina landsvæðið þar sem gistinóttum fækkar milli ára er Austurland, um 24%.

Gistinætur á hótelum voru tæpar 2,2 milljónir á tólf mánaða tímabilinu frá júlí 2013 til júní 2014. Það er fjölgun upp á 12% frá sama tímabili árið áður.