Gistinætur á hótelum í júní voru 285.100 sem er 19% aukning miðað við júní 2014. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar .

Gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 20% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um tæp 10%.

Flestar gistinætur á hótelum í júní voru á höfuðborgarsvæðinu eða 162.800 sem er 16% aukning miðað við júní 2014. Næst flestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 47.600.

Erlendir gestir með flestar gistinætur í júní voru Þjóðverjar með 56.500, Bandaríkjamenn með 54.600 og Bretar með 26.900 gistinætur.

Á tólf mánaða tímabili júlí 2014 til júní 2015 voru gistinætur á hótelum 2.508.841 sem er fjölgun um 15% miðað við sama tímabil ári fyrr.