Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 217.600 samanborið við 190.500 í ágúst 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 86% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í ágúst og fjölgaði gistinóttum þeirra um 12% frá fyrra ári. Gistinóttum íslendinga fjölgaði einnig, voru 30.850 samanborið við 24.150 í ágúst 2010.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um gistinætur á hótelum. Þar kemur fram að gistinóttum á hótelum í ágúst fjölgaði á öllum landssvæðum samanborið við ágúst 2010. Hlutfallslega var mesta aukningin á Norðurlandi, eða 21% frá fyrra ári. Þá fjölgaði gistinóttum um 15% á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.

Gistinætur fyrstu átta mánuði ársins voru 1.085.400 en voru 965.900 á sama tímabili árið 2010. Mest er aukningin á höfuðborgarsvæðinu eða 15%.

Fyrstu átta mánuði ársins hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 11% og gistinóttum Íslendinga um 20% samanborið við fyrra ár.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.