Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní dróst saman um 2% milli 2018 og 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

„Þótt fjöldi gistinátta á hótelum og gistiheimilum í júní breytist lítið milli ára vekur athygli að á hótelum fækkaði þeim um 5% meðan þeim fjölgaði um 14% á gistiheimilum. Á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður fækkaði gistinóttum um 10,5% og 1,6% fækkun var á öðrum tegundum gististaða," segir á vef Hagstofunnar.

Þá kemur jafnframt fram að gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.124.000 í júní síðastliðnum, en þær voru um 1.148.000 í sama mánuði í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 591.500, þar af 397.600 á hótelum og 193.900 á gistiheimilum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum og þess háttar voru um 363.000 og um 170.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.