Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fækkaði gistinóttum á hótelum í mars um tæp 11% m.v. sama mánuð í fyrra. Gistinætur í mars voru tæplega 61 þús. talsins. Þar af voru gistinætur Íslendinga tæplega 20 þús. og fækkaði um 1%. Gistinóttum útlendinga fækkaði hins vegar um 15%. Árið 2003 var fjöldi gistinátta svipaður og 2002 en síðan kom verulegur vaxtarkippur í mars í fyrra. Í mars í ár er fjöldi gistinátta hins vegar minni en í sama mánuði á árunum 2001-2004.

Hugsanleg skýring á samdrættinum nú er hátt gengi krónunnar sem dregur verulega úr samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Þó verður að hafa þann fyrirvara á að mælingin nær eingöngu til hótela sem opin eru allt árið og að ekki eru mældar gistinætur á gistiheimilum. Mögulega hafa því orðið tilfærslur frá hótelum til gistiheimila sem einnig mætti rekja til hækkunar á gengi krónunnar.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka