Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 175.900 en voru 158 þúsund í sama mánuði árið 2005, sem er rúmlega 11% aukning, segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinætur fóru úr 17 þúsund í 19.500 milli ára, sem 15% aukning, segir Hagstofan.

Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgunin rúmum 13%, en gistinóttum fjölgaði úr 92.400 í 104.800. Á Norðurlandi fór gistináttafjöldinn úr 18.400 í 19.900 sem telst rúmlega 8% aukning milli ára.

Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um tæplega sexhundruð, úr 9.200 í 9.800, 6% aukning. Fjölgunin á Suðurlandi nam rúmum 4% og fóru gistinæturnar úr 21 þúsund í 21.900 milli ára.

Fjölgun gistinátta á hótelum í júní árið 2006 má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga. En gistinóttum útlendinga fjölgaði um 12% og Íslendinga um 5%.

Gistirými á hótelum í júlímánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.773 í 3.886, 3% aukning og fjöldi rúma úr 7.659 í 7.900, 3% aukning.

Á fyrstu sjö mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 10% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 600.600 í 661.500 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Hlutfallslega varð aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 53.700 í 66 þúsund milli ára, sem er 23% aukning.

Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 10%, Austurlandi 10%, Norðurlandi 8% og á Suðurlandi 4%. Fjölgun gistinátta á þessu tímabili má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga en þeim fjölgaði í báðum tilvikum um 10%, segir í tilkynningu Hagstofunnar.