Samningar hafa verið undirritaðir um að Hrauneyjar ehf. taki á leigu Hraunbúð, starfsmannabúðir Landsvirkjunar við Hrauneyjafossvirkjun, og reki sem hluta af hálendismiðstöð sinni við Sprengisandsveg. Gistirými hálendismiðstöðvarinnar eykst við þetta um 80% og jafnframt verður nú unnt að uppfylla óskir kröfuharðra viðskiptavina um stærri og betri herbergi með sérsnyrtingu, aðstöðu fyrir fundi, námskeið og mannfagnaði segir í tilkynningu félagsins.

Samningurinn við Landsvirkjun markar að þessu leyti þáttaskil í starfsemi hálendismiðstöðvarinnar og skapar forsendur aukinnar markaðssóknar gagnvart ferðafólki sem krefst meiri þjónustu og betri aðbúnaðar en hægt hefur verið að bjóða þar hingað til. Staðsetningin er einstök, aðeins 150 km frá Reykjavík með malbikaðan veg heim í hlað en samt í víðáttu hálendis Íslands.

Hrauneyjar ehf. voru stofnaðar árið 1994 og hafa rekið hótel með um 50 herbergjum og vinsælan veitingastað á Sprengisandsleið samfellt frá 1998. Þar er opið árið um kring og gestum fjölgar ár frá ári. Nú orðið er nánast fullbókað í gistingu allar nætur á sumrin og viðskiptavinum hefur einnig fjölgað verulega að vetrarlagi í samræmi við aukinn áhuga á ferðalögum um hálendið þegar snjór er á annað borð nægur til slíks.

Aðaleigandi Hrauneyja ehf. er Fannborg ehf. sem á ferðaþjónustuna í Kerlingarfjöllum. Meðeigendur eru meðal annars frumkvöðlarnir að núverandi rekstri Hálendismiðstöðvarinnar við Hrauneyjar, hjónin Jórunn Eggertsdóttir og Sveinn Tyrfingsson. Þau tóku á leigu leitarmannahúsið í Versölum á Sprengisandsleið árið 1987 og fóru að selja þar gistingu, veitingar og aðra þjónustu við ferðafólk.

Árið 1994 tóku Jórunn og Sveinn þátt í að stofna Hrauneyjar ehf. til að reka ferðaþjónustu við Hrauneyjafoss og hið nýstofnaða félag keypti starfsmannahús af Landsvirkjun við Blöndulón og flutti suður að Hrauneyjafossi. Fyrstu gestirnir gistu þar milli jóla og nýárs 1994 og átti reksturinn því 10 ára afmæli núna um jólin.