Hótel Brú
Hótel Brú
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 25% í apríl síðasliðnum. Gistinætur voru 88.000 í apríl 2010 samanborið við 110.000 í ár. Þá voru gistinætur erlendra gesta um 74% af heildarfjölda gistinátta á hótelum og fjölgar um 27% milli ára. Langflestir erlendra gesta sem gistu á hótelum komu frá Bretlandi. Var fjöldi gistinátta þeirra rúmlega 20.000. Næst komu Bandaríkjamenn með rúmlega 8.000 gisitnætur og því næst Þjóðverjar, einnig með rúmlega 8.000 nætur. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Íslendingum fjölgar um 21% samanborið við apríl 2010. Hafa ber í huga að að á þessu tímabili 2010 var gosið í Eyjafjallajökli og má því ætla að aukningin milli ára skýrist á því.

Fjölgar gistinóttum á hótelum á öllum landshlutum nema á Norðurlandi. Hlutfallslega mesta fjölgunin var á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða úr 2.300 í 3.600 eða um 56% samanborið við apríl 2010.

Ef litið er á fyrstu fjóra mánuði ársins þá fjölgar gistinóttum á hótelum úr 315.900 í 343.600 milli árai. Þá hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 9% og gistinóttum Íslendinga um 8% milli ára.