Meira en ein milljón farsímanotenda í 202 löndum um allan heim hafa nú hlaðið niður íslenskum gítarstilli í símana sína. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands í dag. Það er íslenska sprotafyrirtækið Hugvakinn, sem stofnað var við Háskóla Íslands, sem þróaði gítarstillinn auk sérstakrar hljómabókar fyrir farsíma.

Hugvakinn er afrakstur samstarfs Guðmundar Freys Jónassonar og Jóhanns Péturs Malmquist, prófessors í tölvunarfræði en Guðmundur Freyr naut leiðsagnar Jóhanns í meistaranámi sínu í tölvunarfræði.

Tunerific er gítarstillir fyrir farsíma sem virkar þannig að farsíminn nemur hljóð frá gítarnum og gefur myndrænt merki um hvenrig stilla eigi strengina. Samkvæmt tilkynningunni er það ekki síst samstarfi við finnska farsímarisann Nokia að þakka hve vel Tunerific hefur farið af stað.