Gjá er milli efstu fimm liðanna í úrvalsdeildinni í knattspyrnu og liðanna í neðri helmingi deildarinnar. Rekstrartekjur meistaraflokka Vals og FH í knattspyrnu námu á fjórðu hundruð milljóna króna í fyrra. Tekjur meistaraflokka næstu liða, Breiðabliks, Stjörnunnar og KR, má gróflega áætla að séu frá 180 og upp í 200 milljónir króna miðað við samantekt Viðskiptablaðsins.

Talsvert langt er í næstu lið þar á eftir en meðaltekjur meistaraflokka í neðri helmingi deildarinnar í fyrra námu ríflega 100 milljónum króna á síðasta ári. Upplýsingarnar byggja á ársreikningum  eða fjárhagsupplýsingum frá félögunum. KSÍ gerir í fyrsta sinn kröfu um að öll félög í tveimur efstu deildum hér á landi birti ársreikninga knattspyrnudeilda sína opinberlega. Ársreikningar eru ekki að öllu leyti sambærilegir og eru sundurliðaðir af mismikilli nákvæmni. Flest lið gera upp yngri flokka starf og meistaraflokka saman á meðan önnur félög birta einungis uppgjör meistaraflokks. Áætlun Viðskiptablaðsins af tekjum af meistaraflokksstarfi byggir á að draga frá æfingagjöld iðkenda og framlög sveitarfélaga, KSÍ og annarra sem eyrnamerkt eru barna- og unglingastarfi frá heildartekjum.

Evrópukeppnin breytir miklu

Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, segir fjórar leiðir fyrir lið að afla fjármagns. „Það er að ná árangri, þá ertu í Evrópukeppni, selja leikmenn, fá inn styrki og fá fólk á völlinn. Þetta spilar allt saman. Ef árangurinn er ekki góður færðu færri á völlinn og oft á tíðum eru leikmennirnir ekki jafn áhugasamir  að koma fyrir vikið,“ segir Kristinn.

Miklu munar um það fé sem lið fá fyrir árangur og þátttöku í Evrópukeppni. Valur fékk 150 milljónir fyrir árangur sinn í fyrra og Stjarnan og FH fengu bæði 65 milljónir króna. Þá námu tekjur Vals frá styrktaraðilum og auglýsendum um 150 milljónum króna. FH sundurliðar ekki fé frá auglýsendum og styrktaraðilum sérstaklega en næstu lið sem gefa upp tekjur auglýsenda og styrktaraðilar á eftir Val eru Stjarnan með tæplega 90 milljónir króna og KR með um 80 milljónir króna.

Sjá einnig: Valur hagnast um 85 milljónir

Í neðri helmingi deildarinnar nema meðaltekjur af auglýsingum og styrktaraðilum um 50 milljónum króna. Aðrir tekjustofnar vega minna. Tekjur af miðasölu í  Pepsi-deildinni námu frá 9 til 16 milljónum króna á félag í fyrra og tekjur vegna útsendinga í sjónvarpi alla jafna 10 til 15 milljónum króna.

Valur borgar tvöfalt meira en neðstu liðin

Sú fjárhagslega breyta sem alla jafna er sögð segja mestu til um árangur knattspyrnuliða er launakostnaður. Þau lið sem hafi mest á milli handanna geti fengið til sín bestu leikmennina með því að borga hæstu launin. Aðeins hluti liðanna greinir frá launakostnaði við meistaraflokk sérstaklega. Launakostnaður vegna leikmanna Vals nam 140 milljónir króna í fyrra og starfsmanna meistaraflokks karla ríflega 20 milljónir króna. FH sundurliðar launakostnað ekki eftir uppruna en verktakagreiðslur knattspyrnudeildarinnar námu 160 milljónum króna í fyrra. Þá nam launakostnaður vegna leikmanna Stjörnunnar 98 milljónum króna en starfsmanna meistaraflokks karla 37 milljónum króna. Launakostnaður Keflavíkur vegna leikmanna nam 60 milljónir króna í fyrra. Hjá KA nam launakostnaður meistaraflokks karla 59 milljónum króna og Víking 56 milljónum króna. Hjá Grindavík nam launakostnaður leikmanna 42 milljónum króna en annar kostnaður vegna leikmanna 13 milljónum króna. Þá var launakostnaður Grindavíkur vegna meistaraflokks karla nærri 20 milljónir króna.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um afkomu íslenskra knattspyrnuliða í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .