Nokkrir einstaklingar hafa stundað stórtæka kennitölusöfnun og misnotað með þeim hætti heimild í gjaldeyrisreglum Seðlabankans til að gefa gjafir til útlanda. Hver einstaklingur mátti kaupa gjaldeyri að hámarki tíu milljónir króna á ári til gjafakaupa.

Með því að nota kennitölur vina og vandamanna var hægt að margfalda þá upphæð. Fyrir gjaldeyrinn voru keyptar ódýrar krónur og hagnast á gengismuni krónunnar hér á landi og erlendis.

Seðlabankinn hefur nú lækkað hámarksupphæð sem má gefa milli landa um helming. Upphæðin nemur núna fimm milljónum króna á almanaksárinu.

Að auki þarf gefandinn að sýna fram á að hann sé raunverulegur eigandi verðmætanna sem gefa á milli landa, segir Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.