*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 24. mars 2017 16:27

Gjafir yrðu undanskildar frá skatti

Teitur Björn Einarsson vill heimila einstaklingum að gefa skattfrjálst til góðgerðarmála. Hann segir að meira yrði á herðum hins opinbera ef ekki væri fyrir almannaheillasamtök.

Höskuldur Marselíusarson

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flokksins, lagt fram frumvarp til Alþingis sem mun á ný heimila einstaklingum að draga frá skattstofni sínum framlög til góðgerðarstarfsemi ýmis konar.

„Markmiðið er skýrt, að renna styrkari stoðum undir starfsemi þessara frjálsu félagasamtaka sem vinna að almannaheill,“ sagði Teitur Björn.

„Með því að opna að nýju fyrir þá heimild sem var við lýði til ársins 1979 gætu einstaklingar dregið framlög til slíkra samtaka frá skattstofni líkt og fyrirtæki og lögaðilar hafa núþegar í tekjuskattslögum.“

Auka einnig heimild lögaðila

Að frumvarpinu standa auk Teits, þeir Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Óli Björn Kárason og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

„Segjum að þú sért með 100 kall og gefur 10 krónur, þá muntu einungis borga skatt af 90 krónum, en skattgreiðslurnar þínar lækka ekki um 10 krónur,“ segir Teitur Björn spurður nánar út í útfærsluna.

„Við erum einnig að leggja til að hlutfallið sem lögaðilar megi gefa hækki í 1% af veltu, en fyrir tveimur árum stóð Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fyrir hækkun á hlutfallinu úr 0,5% upp í 0,75%.“

Lágmark en ekki hámark á einstaklinga

Teitur Björn segir að ekki verði sett hámark á hvað einstaklingar megi gefa, en hins vegar verði lágmarkið 50 þúsund krónur vegna skilvirknis- og eftirlitssjónarmiða.

„Það er óumdeilt að starfsemi almannaheillasamtaka ýmis konar, þar sem unnið er ómetanlegt sjálboðaliðastarf, hefur verið mikilvægt fyrir samfélagið á svo mörgum sviðum, sem eru rök fyrir því að þau hafa notið ýmis konar skattfríðinda hingað til,“ segir Teitur Björn.

„Enda almennt talið að ef ekki nyti við starfsemi þessa svokallaða þriðja geira, sem er utan hins opinbera og einkageirans, myndi meira færast á herðar hins opinbera sem ekki er víst að gæti sinnt af jafnmiklum krafti og elju þeim verkefnum sem borgaralegt samfélag gerir í gegnum ýmis almannaheillasamtök.“

Ekki mikil tekjuáhrif á ríkissjóð

Teitur Björn segir það hafa lengi verið afmarkað í lögum um hvers konar starfsemi slíkar reglur eigi við enda hefur fyrirtækjum lengi verið heimilt að gefa hluta af veltu til góðgerðarstarfsemi ýmis konar.

„Þetta eru sem sagt gjafir til kirkjufélaga, viðurkenndra líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísinda- og rannsóknarstarfa, en svo er í gildi reglugerð þar sem ráðherra afmarkar hvaða félög um ræðir nánar,“ segir Teitur Björn og vísar í 31. grein tekjuskattslaga.

„Við gerum ekki ráð fyrir að tekjuáhrifin verði mikil fyrir ríkissjóð. Það er til umsögn um þetta frá skrifstofu opinberra fjármála sem segir að þegar hlutfallið var hækkað úr 0,5% í 0,75% hafi tekjuáhrifin verið undir 100 milljónum. Á móti verði að horfa á samfélagslega ábatann sem sé margfaldur.“