Sú tíð er liðin að einungis lággjaldaflugfélög rukki fyrir annan farangur en handfarangur. Rukka nú rótgróin flugfélög eins og Lufthansa, SAS og British Airways einnig fyrir töskurnar þegar ódýrustu fargjöldin eru keypt.

Allt að 13 þúsund króna sekt fyrir yfirvigt

Þó er hámarksþyngdin yfirleitt annað hvort 20 eða 23 kóló, en fyrir þyngri töskur en hámarkinu nemur getur aukagjaldið sem greiða þarf verið ansi dýrkeypt, því hjá sumum flugfélögum þarf að greiða fast verð fyrir yfirvigtina, hvort sem yfirvigtin er 1 eða 10 kíló.

Er yfirvigtargjaldið hæst meðal þeirra flugfélaga sem fljúga á Keflavíkurflugvöll hjá systurfélögunum Airberlin og flyNiki, eða rétt ríflega 13 þúsund krónur. Hjá SAS og Delta þarf hins vegar að borga 12 þúsund krónur.

Í ameríkuflugi Icelandair er gjaldið reyndar sínu hæst, en farþegar fá á móti að innrita tvær 23 kílóa töskur sér að kostnaðarlausu, sem er rýmri heimild en er annars staðar í boði. Þetta kemur fram í frétt túrista .

Hæsta kílóverðið hjá Wow air

Hjá öðrum flugfélögum er oft farin sú leið að rukka fyrir hvert kíló sem er umfram hámarkið og er verð á kíló þá á bilinu eitt til tvö þúsund krónur. það er hæst hjá Wow air, eða 1.999 krónur, en næstdýrast hjá Primera Air, eða 1.900 krónur. Algengasta verðið er hins vegar í kringum 1.500 krónur.

Vefsíðan Túristi gerði síðast samanburð á yfirvigtargjöldum flugfélaganna vorið 2012 en þá kostaði aukakílóið hjá Wow air 600 krónum minna en í dag, en hjá Icelandair hefur verðskráin hækkað um fjórðung á tímabilinu. En verðið hefur hins vegar lækkað hjá Lufthansa og easyJet. Ferðatöskur mega þó aldrei vera þyngri en 32 kíló.