Veiðigjaldið hjá tveimur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum hækkar um næstum þrjá milljarða króna samkvæmt útreikningum sem stjórnvöld létu gera við vinnslu kvótafrumvarpsins. Í frétt á vef RÚV segir að gjaldið hækki töluvert meira vegna uppsjávarafla en botnfiskafla.

Í útreikningunum er miðað við meðalafkomu í sjávarútvegi á árunum 2008 til 2010 og úthlutað aflamark í janúar síðastliðnum. Heildaráhrifin eru þau að allt veiðigjaldið hækkar úr 3,3 milljörðum í rúma sautján milljarða.

Áhrifin á einstök fyrirtæki eru hins vegar misjöfn, en mest á stærstu útgerðarfyrirtækin. Hjá því stærsta, HB Granda, myndi gjaldið hækka um 1.800 milljónir - yrði 2,2 milljarðar eftir lækkun tekjuskatts, og Samherji, sem borgar nú rúmar 230 milljónir, myndi greiða ríflega milljarði meira. Hækkunin yrði því tæpir þrír milljarðar króna hjá þessum tveimur stærstu fyrirtækjum.