Fyrirtæki í Bretlandi munu þurfa að greiða árlegt gjald á hvern starfsmanna sem þau ráða ef þeir koma frá landi sem er utan Evrópusambandsins. Gjaldið mun ekki taka til íslendinga þar sem Ísland er aðili að EES samningnum og njótum sömu réttinda og starfsmenn frá ríkjum innan ESB.

Gjaldið tekur til starfsmanna með sérfræðiþekkingu og mun taka gildi í apríl. Þetta er hluti af breytingum sem verða gerðar á reglum um innflytjendur til Bretlands, undir svokölluðum Tier 2 flokki. Þessari reglu er ætlað að hvetja vinnuveitendur til að ráða til sín innlendan starfskraft í stað þess að flytja hann inn erlendis frá.

Samtök iðnaðarins þar í landi hafa bent á að þetta muni gera fyrirtækjum erfiðara fyrir að ráða til sín hæfileikaríka erlenda starfsmenn.

Gjaldið nemur eitt þúsund pundum, eða um 180 þúsund krónum, og er til greiðslu árlega. Smærri fyrirtæki og góðgerðastofnanir munu þá einnig þurfa að greiða gjald sem nemur 364 pundum á ári. Undantekningar verða gerðar fyrir þá sem hafa doktorsgráðu og þá sem eru að ljúka námi í Bretlandi.