Kastljósið kemur til með að beinast að peningamörkuðum næstu tvær vikurnar en þá eru gjalddagar á skammtímabréfum að verðmæti 140 milljarða Bandaríkjadala í Evrópu og um 265 milljarða í Bandaríkjunum. Sérfræðingar telja að eftirspurn stofnanafjárfesta eftir því að halda slíkum bréfum og endurfjárfesta í þeim muni ráða miklu um hversu viðvarandi lausafjárþurrðin á mörkuðum verði.

Um 142 milljarðar Bandaríkjadala munu falla á gjalddaga í Evrópu á tímabilinu. Sérfræðingar horfa frekar til þróunarinnar í Evrópu því að þó að upphæðin sem er á gjalddaga vestanhafs sé hærri er hún minni en það sem var endurfjármagnað síðustu tvær vikur.

Í frétt Bloomberg-fréttastofunnar um ástandið er haft eftir Jim Reid, sérfræðingi í gjaldeyrisviðskiptum hjá Deutsche Bank í London, að næstu sjö til tíu dagar muni hafa mikil áhrif á framvindu mála á fjármálamörkuðum, en ljóst sé að gangi endurfjármögnun skammtímabréfanna illa sé það til marks um að lausafjárþurrðin muni vara lengur en margir eiga von á. Sökum þess að ekki liggur enn fyrir hversu miklum skaða hrunið á markaðnum með bandarísk undirmálslán hefur valdið þykir líklegt að eftirspurn stofnanafjárfesta, eins og lífeyrissjóða og tryggingasjóða, eftir slíkum bréfum verði minni en venjulega. Af þeim sökum kunna til að mynda fjármálastofnanir að þurfa að endurfjármagna sig með sínu eigin fé og þar af leiðandi draga enn frekar úr aðgengi að lausafé á mörkuðum.

Þróunin á peningamörkuðum bendir til þess að menn séu að búa sig undir slíkt en vextir á lánum banka til fyrirtækja hafa farið hækkandi. Auk þess hefur munurinn á stýrivöxtum og vöxtum á millibankamörkuðum aukist talsvert að undanförnu. Í umfjöllun breska tímaritsins The Economist um ástandið í síðustu viku er sá ótti meðal annars rakinn til þess að stjórnendur fjármálafyrirtækja eru hræddir við að veita öðrum lán á millibankamarkaði vegna ótta um frekari afleiðingar hrunsins á markaðnum með bandarísk neðanmálslaun, auk þarfar þeirra til þess að viðhalda lausafé til þess að verja eigin efnahagsreikning. Er leitt að því líkum í umfjöllun blaðsins að meðan svo er muni inngrip seðlabanka, sem felast í því að dæla inn lausafé á markaðinn, ekki hafa tilætluð áhrif.