Bundnar gjaldeyrisinnstæður í Seðlabanka Íslands í lok nóvember nam um 95,6 milljörðum íslenskra króna. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á kynningarfundi í Seðlabankanum í dag að gömlu viðskiptabankarnir, sem skilanefndirnar stjórna, eigi töluverðan gjaldeyri.

Til að koma í veg fyrir að dregin yrði sú ályktun að hægt væri að fara með þetta fé fljótt úr landi, því gjaldeyrinn væri hluti af gjaldeyrisvarasjóði, hefði verið boðið uppá bindingu til sex mánaða. Reikningarnir bæru hærri vexti og þetta væri hluti af lausafjárstýringu í bankakerfinu.

Þannig er stór hluti gjaldeyris, sem geymdur er í Seðlabanka Íslands, ekki í eigu þeirra sem munu hugsanlega skipta honum í íslenskar krónur til dæmis fyrir kostnaði í innlendri mynt. Þetta eru peningar sem gömlu bankarnir geyma í Seðlabanka Íslands til að geta greitt erlendar kröfur. Þetta hefur áhrif á væntingar um gengisþróun krónunnar.

Innstæður á óbundnum gjaldeyrisreikningum lækkuðu úr 120,6 milljörðum króna í 72,5 milljarða eða um 48 milljarða króna. Í október voru 18,5 milljarðar á bundnum gjaldeyrisreikningum í Seðlabankanum en voru 95,6 í lok nóvember eins og áður sagði. Það er aukning uppá 77 milljarða króna.