Fasteignafélagið Þráinn ehf. var stofnað í mars 1992 af Jónasi Sigurðssyni. Á árunum fyrir hrun átti það verðmætar eignir í miðbæ Reykjavíkur, og eignasafnið hljóp á hundruðum milljóna króna. Eftir hrun tók að halla verulega undan fæti í rekstrinum, og í maí 2012 var félagið úrskurðað gjaldþrota með dómi Hæstaréttar, sem sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars sama ár, en þar hafði kröfu um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta verið hafnað.

Í senn arðvænlegt og áhættuminnkandi
Fjármögnun félagsins kom frá Landsbankanum, í formi gengistryggðra lána, sem eins og flestir muna voru síðar dæmd ólögleg. Haft var eftir Jónasi að bankinn hefði haft samband við sig árið 2006, og ráðlagt honum að kaupa hjá sér gjaldeyrisvarnir, en slíkt væri í senn „mjög arðvænlegt“ og „hyggilegt til að draga úr gengisáhættu“ sem í lánunum fólst.

Síðar hafi þó komið á daginn að afleiðurnar sem Jónas taldi vera gjaldeyrisvarnir hafi í raun falið í sér stöðutöku með krónunni, sem þýddi að þegar krónan hrundi tapaði Þráinn tvöfalt. Annars vegar á því að lánin hækkuðu mikið í krónum talið, og hins vegar á afleiðuviðskiptunum.

Í ofangreindum dómi Héraðsdóms eru þessi afleiðuviðskipti reifuð, en erfitt er að sjá að um gjaldeyrisvarnir fyrir starfsemi innan íslensks hagkerfis geti verið að ræða. Samtals eru 18 samningar nefndir. Í fyrstu 5 er um viðskipti milli íslenskra króna og erlendra gjaldmiðla – aðallega evra en einnig svissneskra franka – að ræða.

Næsti samningur felur hins vegar í sér skipti á evrum og norskum krónum, þar á eftir koma nýsjálenskir dollarar fyrir norskar krónur og öfugt, norskar krónur fyrir evrur, svissneskir frankar fyrir norskar krónur, bandarískir dollarar fyrir japönsk jen og öfugt, og loks tyrkneskar lírur fyrir evrur og öfugt. Blaðamaður hefur ekki undir höndum tæmandi lista yfir eignir félagsins og skuldbindingar, en harla ólíklegt verður að telja að öll þessi afleiðuviðskipti hafi þjónað þeim tilgangi að jafna út gengisáhættu.

Samanlagt nemur nafnvirði þessara samninga – umreiknað í íslenskar krónur þar sem við á – rétt rúmum tveimur milljörðum króna. Samningstímabilin voru misjöfn, en náðu frá 6. október 2008 til 22. desember sama ár.

„Ekkert vit á þessum viðskiptum“
Gengi krónunnar var nokkuð á reiki á því tímabili, svo vægt sé til orða tekið, en virði afleiðusamninga ræðst af verðþróun undirliggjandi eignar. Þegar upp var staðið og samningarnir höfðu verið gerðir upp stóð Þráinn í 107 milljóna króna skuld við Landsbankann vegna þeirra. Því vildi félagið hins vegar ekki una, og bar því við að flokkun bankans á fasteignafélaginu sem fagfjárfesti hefði verið ólögmæt, enda hafi Jónas gert bankanum ljóst að „hann hefði ekkert vit á þessum viðskiptum“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .