Kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans frá árinu 2009 nemur minnst 944 milljónum króna á núverandi verðlagi. Gjaldeyriseftirlitið hefur innheimt 360.000 krónur í stjórnvaldssektir og um 59 milljónir vegna mála sem lokið hafa með sáttum.

Þetta má ráða af tölum sem koma fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um málið. Þar sem tiltekinn kostnaður við eftirlitið, til að mynda sérfræðikostnaður, var ekki reiknaður út árin 2009-2013 er heildarkostnaðurinn við eftirlitið líkast til nokkru meiri en fram kemur í svarinu.

Kostnaður við eftirlitið hefur farið vaxandi ár frá ári. Árið 2009 nam kostnaður við gjaldeyriseftirlitið 10 milljónum króna. Kostnaðurinn var um 100 milljónir árið 2011 og um 210 milljónir fyrstu tíu mánuði þessa árs.