*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 5. júlí 2017 09:15

Gjaldeyriseftirlitið minnkað um 30%

Starfsfólki gjaldeyriseftirlitsins hefur fækkað úr 23 niður í 16 á árinu, en SA gagnrýna að enn sé ekki búið að endurskipuleggja starfsemi þess.

Ritstjórn

Um 30% fækkun hefur verið á starfsfólki í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans það sem af er árinu, en fyrir um fjórum mánuðum síðan voru fjármagnshöftin nánast að fullu afnumin.

Í lok síðasta árs voru starfsmenn í eftirlitinu 23, og nam heildarlaunakostnaður þeirra 314 milljónum króna, en í dag eru heildarfjöldi starfsmanna, eða svokölluð ársverk, um það bil sextán að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Í svari Seðlabankans til blaðsins segist hann ekki geta sagt til um hvort gjaldeyriseftirlitið verði lagt niður á árinu, eða starfsemi þess færð yfir á annað svið bankans. Segir bankinn að enn eigi eftirlitið eftir að ljúka ýmsum rannsóknamálum vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál.

Fyrr í vikunni gagnrýndi Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að ekki væri enn búið að fara fram „umfangsmikil endurskipulagning og hagræðing gjaldeyriseftirlitsins.“ Heildarlaunakostnaður gjaldeyriseftirlitsins náði hámarki í fyrra, en árið 2015 var kostnaðurinn við það 291 milljón króna, en 228 milljónir árið 2014, en það hafði farið vaxandi síðan árið 2009.